The ArcticMainpage
Smellið til að sjá stærra
PDF-útgáfa af þessari grein
PDF-útgáfa
af þessari grein
Norðrið sem heimaland
eftir Piers Vitebsky
KAFLAR:
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
Norðrið sem heimaland
Frumbyggjarnir kynntir

Smellið til að sjá stærra

Komi hirðingar með hjörð sína.

Smellið til að sjá stærra
Stúlkan er dansari í dansflokki í þorpinu.

Smellið til að sjá stærra
Kappakstur á hundasleðum.

 

 

 

Það væri rangt að skipta sögu heimskautasvæðanna einfaldlega í tvö tímabil, þ.e. áður en Evrópumenn komu og það sem síðan gerðist. Evrópumennirnir komu smám saman og hafa haft mismunandi áhrif á ólíkum svæðum á ýmsum tímabilum. Hefðir og siðir þjóðflokkanna sjálfra, ásamt með niðurstöðum fornleifafræðinga leiða í ljós að þeir íbúar sem nú eru nefndir frumbyggjar, höfðu í þúsundir ára lagt að baki miklar vegalengdir vegna búsetuskipta. Sumir Inúítar komu til Grænlands frá Kanada fyrir u.þ.b. eitt þúsund árum, skömmu áður en Víkingar náðu þangað frá Evrópu. Víkingar fluttu með sér landbúnaðarmenningu. Þjóðfélag þeirra hélt velli í næstum 500 ár, en leið undir lok. Til þess liggja trúlega eftirfarandi, samþættar ástæður; loftslag breyttist til hins verra, fæðuöflun brást og þeir náðu ekki að viðhalda tengslum við Evrópu. Veiðimenn heimskautasvæðanna löguðu sig hins vegar að kaldara loftslagi og urðu forfeður nútíma Grænlendinga. Í norðanverðri Asíu, svo annað dæmi sé tekið, er stærsti þjóðflokkurinn Sakhar alls um 382,000. Þeir tala tungumál sem er skylt tyrknesku og fluttu sig ekki um set frá mið-Asíu inn í Lena dalinn fyrr en á miðöldum. Þegar þangað kom, var Eveny þjóðflokkurinn fyrir í dalnum, en þeir hröktu þá á brott upp í fjöllin þar sem þeir eru nú hreindýrahirðar. En jafnvel Eveny fólkið átti ekki upprunalega aðsetur á heimskautaslóðum, heldur var aðflutt frá norður Kína og er skylt Manchu þjóðflokknum sem stýrði kínverska keisaradæminu allt fram í byrjun tuttugustu aldar.
Vegna vaxandi kröfu um sjálfsstjórn einstakra landsvæða, er algengt í nútíma stjórnmálum að draga skýra markalínu milli fólks af evrópskum uppruna og þeirra sem fyrir voru á svæðinu og geta þess vegna talist frumbyggjar. Aðkomumönnum er svo skipt niður í Rússa, Bandaríkjamenn, Norðmenn, Dani og mörg fleiri þjóðerni (Í Alaska er t.d. margt fólk sem á ættir að rekja til Japan, Kóreu, Filippseyja og Mexikó). Hins vegar má líta svo á að þetta fólk sé aðeins nýjasta bylgja innflytjenda til norðurslóða. Einnig ber að hafa í huga að fyrr á tímum, eins og nú, var mikið um blönduð hjónabönd milli mismunandi þjóðflokka frumbyggja, sem og milli frumbyggja og aðkomumanna.

Smellið til að sjá stærra
Ung stúlka af Nivkh þjóðflokki með nýveiddan lax.

Smellið til að sjá stærra
Eveny hreindýrahirðar reyna að nį radíosambandi við þorpið.

Smellið til að sjá stærra
Kona viš skart-
gripagerš,
Ammasalik hérað, Austur Grænland.

Samt er veigamikill munur á aðkomumönnum og öllum hinum hópunum. Þeir sem koma utan að eru ekki að mestu háðir landinu sér til lífsviðurværis, heldur koma þeir sem fulltrúar iðnvæddrar heimsmenningar er sér þeim fyrir birgðum, fluttum um loftsins vegu. En auðvitað er einnig um að ræða hópa sem lifa á auðlindum náttúrunnar, þótt ekki séu þeir frumbyggjar eins og t.d. smábændur og fiskimenn á Íslandi og í öðrum norðlægum löndum. Það krefst hins vegar einstakrar aðlögunar að lifa af í þessu umhverfi að hætti frumbyggjanna. Hér er ekki bara um að ræða ytri aðlögun að breyttu loftslagi sem allir aðkomumenn verða að ganga í gegnum, heldur þarf líka að samsamast menningu sem þróast hefur um þúsundir ára. Þessi menning byggist á sérstöku viðhorfi sem er í takt við hið náttúrulega umhverfi og stöðu mannsins innan þess.
Þótt margt sé ólíkt með því fólki sem byggir norðlægar slóðir, hefur það fundið svipaðar leiðir til að nýta þau efni sem fyrir hendi eru sér til viðurværis. Þetta á ekki bara við um veiðitækni. Á öllum þessum svæðum eru dýraskinn eina efnið sem er nógu þjált til að gera úr því fatnað og skó, svo og tjöld og bátaskýli.
Allir þjóðflokkar hafa þróað einhvers konar skíði, sleða eða snjóþrúgur. Margir hafa tamið hunda eða hreindýr til að flytja farangur eða draga sleða.
Í Síberíu eru hreindýr líka notuð til reiðar. Og auðvitað hafa allir norðlægir þjóðflokkar fundið leiðir til að fanga og hemja dýr sem ella myndu flakka um víðar lendur, frjáls og óheft: þau eru veidd í snörur, girðingar, með boga og örvum, og fiskað er í net og gildrur.
Bein og horn eru alls staðar notuð þar sem þörf er harðra efna, svo og viður þar sem hann er að finna. Aðlögunarhæfnin hefur alltaf reynst lífgjafi íbúa á norðurslóðum, sem eru reiðubúnir að nýta sér hverja þá tækni sem sem völ er á. Nú á tímum knýja þeir skinnbáta með utanborðsmóturum og ekki vantar byssuna um borð, enda allur þessi búnaður, hefðbundinn jafnt sem nýstárlegur, nytsamur og hagkvæmur í lífsbaráttunni.

Smellið til að sjá stærra
Litla Beringia hundasleðakeppnin fyrir börn var skipulögð nýlega til að hvetja börn til að taka þátt í þessari fornu hefð þjóðar sinnar.

Smellið til að sjá stærra
Sigurvegarar í litlu Beringia keppninni.

Smellið til að sjá stærra
Eveny dansflokkur leikur listir sínar í upphafi litlu Beringia sleðakeppninnar.

Smellið til að sjá stærra
Fyrir fram tjald hirðingja.

Í skjóli þessara sameiginlegu lífshátta hafa svo mismunandi hópar fundið sérleiðir til að aðlagast eigin umhverfi. Inúítar og ættingjar þeirra, eins og t.d. Yuit og Inupiat í Alaska sem og Kalaalit (Grænlendingar) á Grænlandi, byggja megnið af strandlengju heimskautsins. Á þessum svæðum er landið ófrjótt og þeir lifa á því sem sjórinn gefur, fiskveiðum og sel- og hvalveiðum. Þessi lífsmáti verður til þess að sjórinn tengir saman eyjarnar í stað þess að aðskilja þær. Á sumrin ferðast Inúítar í húðkeipum (kajökum) og bátum af öðrum gerðum, en skjótasti ferðamátinn yfir sjávarísinn að vetrarlagi er hundasleðinn eða vélknúni snjósleðinn.
Fjölmargir aðrir þjóðflokkar búa að mestu sunnan skógarmarka og stunda veiðar á fiski og landdýrum. Að auki eru flestir hópar í Evrópu og Asíu með hreindýrahjarðir. Á meðal þessara þjóðflokka sem búa inni í landi eru svonefndir Indíánar í Norður Ameríku og ýmis þjóðabrot í Síberíu.
Amerísku Indíánarnir eru nyrsti hópur mikils og margbreytilegs fjölda frumbyggja sem bjuggu í Norður Ameríku áður en Evrópumenn komu til sögunnar. Þjóðflokkar Athabaska tungumálaflokksins sem búa í Alaska og Yukon héruðum Kanada eru t.d. Tanaina, Kuchin, og Koparfljótshóparnir. Þeir hafa frá fyrstu tíð lifað að verulegu leyti á laxi og öðrum fiski í ám og fljótum. Mið- og Austur Kanada eru heimaslóðir margra Cree þjóðflokka sem tala tungumál af Algonquian stofni. Sá málaflokkur teygir sig langt í suður allt til Blackfoot og Cheyenne Indíána í Bandaríkjunum. Einn af helstu Cree þjóðflokkunum í norðri eru Naskapi frá Quebec sem jafnan fylgdu eftir hinum miklu hjörðum Karibou hjartardýranna.
Í norðurhéruðum Rússlands eru þrír þjóðflokkar, með nokkur hundruð þúsund íbúa hver, Komi, Karelian og Sakha. Hver um sig á sitt eigið sjálfstjórnarsvæði, enda þótt þar séu yfirleitt fleiri Rússar og aðrir evrópskir landnemar, þar á meðal Úkraínumenn. Síðan er um að ræða 26 minni hópa sem tilheyra nokkrum tungumálaflokkum og dreifast yfir alla Síberíu. Þessi þjóðarbrot telja frá nokkrum hundruðum upp í fáein þúsund hver, og eru samtals u.þ.b. 186,000. Meðal þeirra er Khanty fólkið sem býr meðfram Ob fljótinu í vestanverðri Síberíu. Frá fornu fari byggðist afkoma þeirra á fiskveiðum í skógarfljótum og flæðiengjum, en veiðarnar hafa spillst mjög vegna mengunar frá nærliggjandi olíuborholum. Lengra til norðurs umhverfis ósa Ob fljóts býr Tenet hópurinn, hreindýrahirðar á svæði þar sem skógur og túndra mætast. Eveny þjóðflokkurinn, sem einnig byggir afkomu sína að mestu á hreindýrahjörðum, á aðsetur mun austar, í átt að Kyrrahafi.
Sérstakur og óvenjulegur þjóðflokkur, Samar, býr í Norður Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Rússlandi. Þeir eru um 35,000 talsins og hafa sennilega búið á þessum slóðum í 4,000 ár. Samarnir á ströndinni stunduðu veiðar á sjávarfiski, en þeir sem bjuggu inni í landi voru hreindýrahirðar eða veiddu ferskvatnsfisk. Samar eiga sér langa sögu náinna samskipta við hina skandinavísku íbúa og nú stunda aðeins 10% þeirra hreindýraeldi.
Fyrri kafliFyrri kafli Næsti kafliNæsti kafli
The Arctic is a Homeland, by Piers Vitebsky. http://www.thearctic.is
Copyright Stefansson Arctic Institute and individual authors ©2000
Developed in partnership with the EU Raphael Programme